Category Archives: Stjórnmál

Allt í plati

Þingmaðurinn Björn Valur Gíslason kom með réttmæta ábendingu á annars þunnu Alþingi í gær. Hún var sú að í nafni gagnsæis og bættra vinnubragða ætti Sjálfstæðisflokkurinn að birta endurgreiðsluferil á þeim styrkjum sem flokkurinn þáði frá FL Group og Landsbankanum í árslok 2006. Bjarni Benediktsson svaraði því til að sá ferill lægi fyrir og af orðum hans að dæma er um að ræða vaxtalaust lán og án verðbóta til sjö ára upp á 55 milljónir með jöfnum afborgunum.

Gott og vel en er flokkurinn í rauninni að greiða styrkinn til baka?

Ef við gerum ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hefði þurft að greiða stýrivexti Seðlabankans frá því í október 2006 og fram til dagsins í dag (sem eru klárlega lægri vextir en Sjálfstæðisflokkurinn hefði í raun þurft að greiða) þá væri skuld þeirra komin í 94 m.kr.

Ef við hins vegar núvirðum endurgreiðslur á sjö árum og miðum við 7% vexti (innlán Seðlabankans sem eru aftur fremur lágir vextir) þá er núvirt verðmæti þeirra greiðslna sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að inna af hendi 45.3 m.kr.

Það vantar sem sagt 48.7 m.kr upp á að Sjálfstæðisflokkurinn sé í rauninni að endurgreiða þessa styrki með vöxtum og verðbótum.

Með öðrum orðum, frá sjónarhóli dagsins í dag er ávinningur Sjálfstæðisflokksins af þessum fjármálagjörningi (að taka við styrkjunum en endurgreiða þá síðan löngu seinna án vaxta og verðbóta) 48.7 m.kr.

Flokksgæðingar taka því heilshugar undir tillögu Björns Vals og hvetja Sjálfstæðisflokkinn til að setja upp lánareiknivél til að almenningur geti betur áttað sig á hversu lítið hann greiðir tilbaka af þessum styrkjum.

Nám er vinna

Stúdentaráð Háskóla Íslands boðaði til fjöldamótmæla fyrir utan ráðuneyti menntamála í dag. Þangað mættu 20 manns eða jafnmargir og skipa stúdentaráð.

Tilefnið var þó misheppnaðra en mótmælin. Stúdentaráð vill ekki að skilyrði fyrir ríkisstyrktum námslánum sé að stunda 60% af fullu námi. Þeim finnst 30% nægjanlegt. Samt hafa námshreyfingar um allan heim barist fyrir því að láta fólk skilja að nám sé vinna.

Líkt og Ísland berjast fjölmargar þjóðir við að ná tökum á fjárlagahalla ríkisins. Sjálfsagt þætti mörgum erlendis námsmannahreyfingin íslenska standa frammi fyrir lúxusvandamáli að námsmennirnir þurfi að sætta sig við að skila 60% námsárangri miðað við annað sem þekkist í niðurskurði í þessum málaflokki.

Það er hætt að rigna sandi

Ef flokksgæðingarnir væru í stöðu Jón Bjarnasonar, sjávar- og landbúnaðarráðherra í boði Vinstri grænn, færu þeir að grufla í skrifum franska félagsfræðingsins Bourdieu. Þar hlýtur síðasta haldreipi andstöðu hans við fækkun ráðuneyta að liggja. Ekki er það þó sterkt enda hefur Bourdieu vart ætlað sér að veita stjórnmálamanni eins og Jóni sterkara lím á ráðherrastólinn með gagnrýni sinni á skoðanakannanir.

Á mánudag birti Capacent Gallup niðustöðu könnunar á afstöðu almennings til fækkunar ráðuneyta. Þar var fólk spurt hvort það væri hlynt eða andvígt henni. Í ljós kom 75% var hlynnt en aðeins 10% á móti. Reyndar var andstaðan enn minni á meðal kjósenda Vinstri grænna, einungis 8% en 77% voru hlyntir.

Það verður erfitt fyrir Jón andmæla þessum skýru skilaboðum almennings. Eldgosinu er lokið og jafnvel tilvísanir í Bourdieu duga ekki einu sinni til.

Hvað varð um Icesavepeningana?

Icesavemálið er líklega þaulræddasta mál íslenskra stjórnmála fyrr og síðar. Engu að síður hafa enn ekki allar hliðar þess verið ræddar og eru sumir furðulega hræddir við það. Þeir sem gerast svo djarfir að minnast á að lýðræðislega kjörin íslensk stjórnvöld beri einhverja ábyrgð á málinu eru einfaldlega úthrópaðir sem skaðvaldar og málflutningur þeirra sagður ógnun við íslenska hagsmuni. Kinka fyrrverandi og núverandi forystumenn Sjálfstæðisflokksins iðullega ákaft kolli þegar slík brigsl eru borin á borð enda ljóst að flokkurinn sem ber höfuðábyrgð á hruninu er skorinn úr snörinu ef ekki má gagnrýna þátt íslenskra stjórnvalda í sjálfsköpuðu hruni.

Annað dæmi um þessa hræðslu var þegar Hjálmar Sveinsson, þá frambjóðandi í prófkjöri Samfylkingarinnar, velti því fyrir sér hvort að stór hluti tónlistarhússins hefði í raun verið fjármagnaður af breskum og hollenskum sparifjáreigendum í gegnum Icesave-reikninga Landsbankans. Viðbrögðin sem Hjálmar fékk voru á köflum ofsafengin og er ekki gott að átta sig á því af hverju. Líklega hefur einhverju fólki þótt óþægilegt til þess að vita að hluti Icesavepeninganna væri bundinn í gleri og steinsteypu á Íslandi. Enn ein hrunlygin sem reynt er að dreifa er að Íslendingar hafa ekkert séð af útrásarhítunni nema þá einhverjir nokkrir forsprakkar hennar. Sú staðreynd að ríkissjóður Íslands var skuldlaus við hrunið og að ótrúlegur fjöldi einstaklinga hafði tryggt sér lán í erlendri mynt fyrir húsum, bílum, hlutabréfum, listaverkum eða sumarbústuðum sýnir að svo var ekki. Á útrásarárunum flæddu peningar yfir Ísland.

Vangaveltur Hjálmars eiga auðvitað fullan rétt á sér og rúmlega það. Það liggur fyrir að Icesave var leið Landsbankans til þess að fjármagna sig eftir að lánsfjármarkaðir lokuðust. Þar með rann meginhluti þeirra 1.300 ma.kr. sem söfnuðust inn á Icesave-reikningana beint til höfuðstöðvanna í Austurstræti. En auðvitað fór ekki ekki nema lítill hluti Icesave-peninganna í tónlistarhúsið, en hvert fór afgangurinn? Til þess að átta sig á því er líklegast besta leiðin að horfa til þess hvernig lausafé banka er almennt ráðstafað.

Líklega hefur einhver hluti farið í launagreiðslur til starfsmanna Landsbankans. Í gamla Landsbankanum dreifðust laun ekki jafnt á alla starfsmenn og því hafa mestu snillingarnar fengið mest fyrir sinn snúð. Hluti þessara launa hefður síðan runnið í ríkissjóð í gegnum tekjuskattskerfið en restin út í hagkerfið með neyslu og fjárfestingum. Þá má gera ráð fyrir því einhverjir starfsmenn, einkum ofurlaunaþegarnir hafi lagt eitthvað inn á sparireikninga sem síðan voru tryggðir í topp með neyðarlögunum. Að auki má gera ráð fyrir að hátt í hundrað milljarðar króna hafi farið í að greiða út úr peningamarkaðssjóðum skömmu eftir hrun.

Umsvif Landsbankans voru miklil á þessum tíma og var hann stór kaupandi fjölbreyttrar þjónustu á Íslandi. Landsbankinn skilaði einnig talsverðum hagnaði á þessum tíma og hefur hann greitt skatt af honum. Þá hafa talsvarðar upphæðir farið í að greiða vexti af af erlendum lánum bankans og hafa þeir peningar farið aftur úr landi. Ekki má heldur gleyma að Landsbankinn og eigendur voru ötulir stuðningsmenn ýmissa lista- og menningarviðburða, til að mynda ljóðafélagið Nýhíl, þannig að þar hafi einhverjir notið góðs af útrás Landsbankans.

Þegar litið er yfir þetta er ljóst er að er erfitt verður fyrir íslenskan almenning að koma höndum yfir ránsfeng Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Inni á íslenskum sparireikningum liggur þó án efa stór hluti Icesvave peninganna, bæði þeir sem greiddir voru í laun sem og þeir sem voru greiddir út úr peningamarkaðssjóðum Landsbankans. Líklega er því besta leiðin, og um leið sú sanngjarnasta, að þjóðnýta allar innstæður yfir lágmarks innstæðutryggingunni, 20.887 evrum, í bönkum á Íslandi. Þá upphæð mætti síðan nýta til þess að greiða niður þann hluta höfuðstóls Icesave-reikningsins sem eignir gamla Landsbankans dyggðu ekki fyrir. Því sem eftir stæði yrði síðan dreift jafnt á alla Íslendinga.

Með þjóðnýtingu þessara innstæðna er hægt að lágmarka tjón íslenskra skattgreiðenda vegna Icesavereikninganna og um leið leiðrétta eftir fremsta megni það óréttlæti sem fólst í útgreiðslunum úr peningamarkaðssjóðunum og því að tryggja allar innstæður upp í topp með neyðarlögunum. Er Sjálfstæðisflokkurinn til í þann dans?

Atvinnumennirnir og almenningur

Mikið var gert úr meintum ummælum Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra í sænsku fréttablaði um að Icesavemálið væri of flókið fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Síðar kom í ljós að ekki var um hans orð að ræða heldur túlkun blaðamannsins á þeim. En fjármálaráðherra er ekki einn um að hafa fundist málið vera flókið.

Framan af Iceasave-umræðunni lagði Ögmundur Jónasson, þingmenn Hreyfingarinnar og reyndar fleiri þingmenn á það þunga áherslu að þingmenn skyldu ganga upplýstir til atkvæðagreiðslu. Sett var fram sú krafa að allar heimsins upplýsingar sem mögulega gætu tengst Icesavemálinu yrðu gerðar aðgengilegar þingmönnum og þeir fengju nægan tíma til þess að kynna sér þær áður en þeir kæmust að endanlegri niðurstöðu í þessu flókna máli.

Það tók 63 alþingismenn í fullu starfi sex mánuði að komast að niðurstöðu og þóttu mörgum það heldur knappur tími.

Nú eru Ögmundur Jónasson, þingmenn Hreyfingarinnar og fleiri þingmenn orðnir talsmenn þess að öll heimsins mál og sérstaklega Icesave fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú hefur forsetinn einmitt orðið við þessu og vísað Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu. Almenningur mun þó aðeins fá tvo mánuði til þess að kynna sér sama mál og atvinnumennirnir þurftu í það minnsta sex mánuði til að taka afstöðu til.

Lilja berst við vindmyllur

Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur og þingkona Vinstri grænna, kemst að fróðlegri niðurstöðu í grein um ICESAVE-málið í Fréttablaðinu í gær. Hún segir kjarna ICESAVE-málsins vera uppgjör skattgreiðenda við fjármagnseigendur. En hverjir skyldu hinir feitu fjármagnseigendur vera sem Lilja Mósesdótttir vill nú klekkja á með aðstoð forseta vors og verndarengils útrásarvíkinganna?

Þrjúhundruðogfimmtíuþúsund – 350.000 – Hollendingar og Bretar tóku gylliboði íslensku útrásarvíkinganna og lögðu fé inn á sparireikninga í netbanka þeirra – ICESAVE. Það gerðu þau í góðri trú enda var þeim sagt að spariféð væri tryggt sem gull og það staðfest af íslenskum yfirvöldum, sem studdu að sína menn, útrásarvíkingana. Með nafni netbankans var gott orðspor Íslands á erlendum vettvangi nýtt og tiltekið sérstaklega á heimasíðu hans að á Íslandi væri tryggingarsjóður sem tryggði lágmarksinnstæður. Ekki leið að löngu þar til innstæðueigendur komu að lokuðum dyrum. Peningarnir voru horfnir, farnir til Íslands til að borga íslensku auðvaldi arð og vexti, íslenskum starfsmönnum laun og íslenska ríkinu skatta. Á þessum tíma var Landsbankinn hættur að fá fyrirgreiðslu á erlendum lánsfjármörkuðum og ryksugaði því til sín sparifé almennings í þessum löndum. Eftirlitsaðilar á Íslandi gerðu, að því er virðist, engar athugasemdir enda flæddi fjármagnið um íslenskt efnahagslíf. Svo hrundi pýramídinn.

Á haustdögum 2008 féllust íslensk stjórnvöld á að greiða hluta af því fé, sem þessir sparifjáreigendur myndu tapa, þáðu lán breskra og hollenskra stjórnvalda til að gera það og samþykktu hjálp þeirra við að koma fénu í réttar hendur. Á meðan tryggðu íslensk stjórnvöld innstæður í útibúum sama banka, innan landamæra Íslands, upp í topp.

Nú berjast andlegir leiðtogar útrásarinnar og gróseranna; þeir hinir sömu og samþykktu að þiggja lánin haustið 2008 gegn því að við það samkomulag verði staðið. Það er í eðlilegu samræmi við það leiðarljós þeirra að almúganum sé rétt og mátulegt að blæða í samskiptum við burgeisa. Hitt sætir nokkurri furðu að í þetta föruneyti sláist þeir sem gefa sig út fyrir að vilja vernda lítilmagnann.

Hverjir eru það svo sem þessi sameinaða fylking berst gegn? Hverjir eru þessir fjármagnseigendur sem Lilja berst gegn?

Obbi þeirra sem lögðu fé inn á ICESAVE er venjulegt almúgafólk í þessum löndum með lítið á milli handanna. Það eru lífeyrisþegar sem vildu drýgja framfærslufé sitt, ungt fólk sem var að nurla saman fyrir útborgun í íbúð og verkafólk sem var að spara fyrir sumarleyfisferðinni 2009. Í Bretlandi þarf fólk að reiða sig á sparifé sitt enda eru þar ekki öflugir lífeyrissjóðir eða námslánakerfi.

Hvað átti þetta fólk? Hvert var fjármagnið?

Að frátöldum nokkur hundruð sjóðum og fjársterkum aðilum, sem fá litlar bætur frá Íslandi, standa eftir um 350.000 einstaklingar sem áttu samtals um 700 milljarða króna á reikningum sínum eða um 2 milljónir að meðaltali. Hvílík auðæfi (Meðalsparifjáreign Íslendinga er um 3 milljónir). Sem betur fer hefur tekist að bjarga miklum verðmætum með yfirtöku ríkisins á bankanum þó að sú yfirtaka hefði mátt eiga sér stað miklu fyrr.

Þessi verðmæti gengu fyrst upp í að greiða tap íslensku sparifjáreigendanna og eftir það er til fé sem vonast er til að nægi til að greiða allt að 90% af tapi erlendu sparifjáreigendanna. Eigur þessa fallna banka eiga að greiða fyrir hans eigin óráðsíu og afgangurinn skal koma úr ríkissjóði eftir sjö ár þegar íslenskt hagkerfi hefur náð styrk sínum og þá hefur ríkið að lágmarki átta ár til að endurgreiða eftirstöðvarnar. Um greiðslu þeirra snýst Icesave málið.

Ekki skal dregið úr mikilvægi andófs gegn því að auðhringir og auðmenn vaði uppi og valdi almenningi skaða með græðgi sinni. Uppgjör Lilju Mósesdóttur við fjármagnseigendur er hins vegar ekki það. Það eru ekki erlendir kröfuhafar eða fjármálastofnanir sem fá skattpeninga Íslendinga. ICESAVE málið snýst um sparifé venjulegs fólks og þá staðreynd að íslensk stjórnvöld sinntu ekki því sínu hlutverki í að verja almenning fyrir áhættusæknum útrásarvíkingum.

Sumir hafa gengið svo langt að segja ICESAVE málið vera stóru orustuna við kapítalismann – falli ICESAVE þá fari kapítalisminn sömu leið. Komi Íslendingar sér undan ICESAVE mun að sjálfsögðu ekkert slíkt gerast. Það verða einfaldlega breskir og hollenskir skattgreiðendur sem sitja munu uppi með enn stæri reikning en þeir gera nú þegar vegna klúðurs íslenskra stjórnvalda, sem þeir bera enga ábyrgð á öfugt við þá íslensku.

Ævintýraleg endaleysa

Forseti vor ákvað að svara kalli meirihluta þingmanna og nýta málskotsrétt sinn til að vísa nýjum Icesavelögum til þjóðarinnar. Rökstuðningur hans var sá að meirihluti væri meðal þingmanna en ekki Alþingis fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Flokksgæðingar hafa tekið sér góðan tíma til þess að melta þá ákvörðun og til þess að skilja málflutning andstæðinga fyrirliggjandi lausnar á málin en eru samt engu nær.

Á Alþingi lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram tillögu um slíka atkvæðagreiðslu og var hún var felld með meirihluta atkvæða. Eftir þá niðurstöðu tjáði formaður Sjálfstæðisflokksins að forseti ætti ekki að nýta málskotsrétt sinn. Engu síður taldi forsetinn meirihluta fyrir slíku en þá skoðun hlýtur hann að byggja á guðlegri innsýn sinni í höfuð manna líkt og óskeikulir kóngar og keisarar gerðu öldum saman í Evrópu.

Forseti vor hafði ekki fyrr kynnt niðurstöðu sína en allir þeir þingmenn, utan Hreyfingarinnar og nokkurra annarra, sem studdu slíka atkvæðagreiðslu hófu hlaup á milli ráðamanna og fjölmiðla til þess að segja að þessi atkvæðagreiðsla mætti alls ekki eiga sér stað. Meðal þeirra sem stigið hafa fram og mælt gegn því að málið fari í þjóðaratkvæði er hinn mikli prinsipmaður Pétur Blöndal sem mælti einmitt fyrir áðurnefndri tillögu um að málinu yrði vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Á undanförnum vikum hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins (að meðtöldum Indefenceflokknum) snúið frá því að flytja eldmessur um að Íslendingar eigi ekki að borga skuldir einkabanka yfir í það að gangrýna ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki komið því nægilega skýrt og skilmerkilega til skila við erlenda fjölmiðla að Íslendingar séu staðráðnir í því (og aldrei hafi annað komið til greina) að borga skuldir einkabanka(við breskan og hollenskan almenning). Ekki er langt síðan sömu aðilar gagnrýndu ríkisstjórnina fyrir að halda þeim málstað ekki á lofti að Íslendingar teldu sig ekki bera neina skyldu til þess að borga þessar skuldir. Nú segja þeir allir að Íslendingar eigi og muni að sjálfsögðu standa við skuldbindingar sínar. Enginn minnist á Héraðsdóm Reykjavíkur og svokölluð dómstólaleið er horfin af yfirborði jarðar.

Mikið hefur verið vísað til þess að engu máli skipti þó Icesavefrumvarpið sem samþykkt var 30. desember væri fellt því fyrri lög með sínum fyrirvörum væru enn í gildi og þau myndu tryggja hag Íslands. Á milli þess hafa vextirnir verið gagnrýndir, bent á að óvíst sé með endurheimtur á eignum Landsbankans og að Íslendingar eigi ekki að borga skuldir einkabanka. Það vill svo til að bæði fyrri og seinni Icesavelögin veita heimild til ríkisábyrgðar á sama samningnum sem ber þar af leiðandi sömu vexti, veitir sama tíma til að hámarka virði eigna Landsbankans og felur í sér að borga sömu skuldir einkabanka (við breskan og hollenskan almenning).

Ástþór Magnússon, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, hefur stigið fram og boðið aðstoð sína við að leysa Icesave málið. Ekki stóð á flissviðbrögðum við þeirri hugmynd enda virðast ýmsir ekki fá nóg af því að sparka í hann. Flokksgæðingar eru hins vegar ekki í þeim stellingum enda er langt frá því að vera augljóst af hverju Ástþór Magnússon er verri en þeir aðilar í stjórnarandstöðu sem bjóða fram krafta sína. Hann er þó allavega frumlegur og jafnvel samkvæmur sjálfum sér.

Andstæðir pólar

Vinsæll er sá frasi um að íslensk stjórnmál snúist ekki lengur um hægri og vinstri. Honum fylgja jafnan útleggingar á því um hvað þau snúast og falla þær yfirleitt að hagsmunum þess sem mælir. Flokksgæðingar fylgja tískunni í þessu sem öðru.

Meginverkefni íslenskra stjórnmála snúast að svo stöddu ekki um vinstri og hægri. Segja má að pólarnir séu fjórir, endar á tveim ásum, öðrum láréttum en hinum lóðréttum. Sá lárétti liggur frá réttlæti yfir (til hægri) í ranglæti en sá lóðrétti liggur frá raunsæi upp til óraunsæis. Þetta er ástand sem mun vara þar til við höfum gert upp við hrunið. Að því uppgjöri loknu, þegar kemur að hinni eiginlegu endurreisn, mun vinstri, hægri og önnur hugmyndafræðileg nálgun á stjórnmálin aftur taka við og verður uppgjörið leiðarvísirinn í þeirri umræðu.

Forysta ríkisstjórnarinnar, þau Jóhanna og Steingrímur, átta sig á þessu. Stefna stjórnarinnar er að byggja norrænt velferðarsamfélag á rústum þess sem frjálshyggja og spilling Sjálfstæðisflokksins skildi eftir sig. Áður en að því verkefni kemur er þeim ljóst að leysa þarf fjölmörg vandamál sem hún fékk í arf og eitt þeirra er uppgjör við reikningseigendur í Hollandi og Bretlandi. Uppgjörið er nauðsynlegt þar sem það hefur verið fellt inn í efnahagsáætlun stjórnvalda frá upphafi hrunsins sem og í skilyrðum fyrir þau lán sem þurfa að koma til vegna þess.

Sama hvaða skoðun menn hafa á krónunni þá er ljóst að til þess að íslenskt efnahagslíf lendi ekki í gjaldeyriskreppu þarf að styrkja þá sjóði sem að baki henni standa. Það er gert með lánum sem eins og áður segir eru samtengd lausn Icesave deilunnar. Frekari töf á þeirri lausn auka því á hættu á gjaldeyriskreppu. Spurning hvað allir þeir góðglöðu borgarar sem nýttu sér gjaldeyrislán fyrir bílum, sumarbústöðum og húsum en skrifuðu einnig undir áskorun til forsetans um að synja lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave segðu ef lán þeirra hækkuðu um 30% til viðbótar?

Það er auðvitað öllum ljóst sem fylgst hafa náið með stjórnmálum frá hruni að umræða um Icesave hefur kæft allt annað – sér í lagi eftir að Alþingi var falið að taka afstöðu til lausnar málsins. Verði þeirri lausn hafnað má ljóst vera að málið er aftur komið á byrjunarreit eða jafnvel aftan við byrjunarreit. Ekki hefur neinn fjölmiðill kveikt á því ennþá að Hollendingar og Bretar gætu ákveðið að sleppa því að semja við íslensk stjórnvöld og látið landið sigla sinn sjó. Tryggingarsjóðir þessara ríkja eiga forgangskröfu í bú Landsbankans eftir að hafa greitt sparifjáreigendunum út. Jafnframt ættu þeir kröfu á hinn íslenska Tryggingarsjóð sem er óháð kröfu þeirra í bú Landsbankans.

Hvað sem þessum vangaveltum líður að þá er efnahagsáætlun stjórnvalda teflt í hættu samþykki forseti ekki lög um ríkisábyrgð. Sú efnahagsáætlun er forsenda þess að hægt sé að reisa norrænt velferðarsamfélag enda krefst slíkt samfélag fjárútláta hins opinbera til að standa undir sér.

Það er því hryggilegt að fylgjast með þingmönnum eins og Ögmundi Jónassyn tala um það af léttúð að lausn Icesave-málsins sé bara eitthvað aukaatriði, aðalatriðið sé að ríkisstjórnin fylgi sinni stefnu um að byggja upp norrænt velferðarþjóðfélag.

Ögmundur og ríkisstjórnin eru á sama enda lágrétta ásins, fylgjandi réttlæti en á þeim lóðrétta eru þau því miður á gagnstæðum pólum. Eða hvar á að finna peninga til að fjármagna halla ríkissjóðs? Er til ríkisstjórn í þessu sólkerfi sem myndi lána Íslendingum fé til 15 ára með 7 ára afborgunarleysi á 5,55% vöxtum?

Samræða um tvær skoðanir á Icesave I.

Simplicio: Icesave samkomulagið er landráð og kúgun. Það er verið að kúga okkur af erlendum nýlenduþjóðum og Evrópusambandinu. Þeir veigra sér ekki við því að beita sömu samviskulausu meðulum og þeir hafa gert gagnvart nýlendum sínum. Við, Íslendingar eigum að standa í lappirnar og neita að ganga undir skilmála vondra útlendinga.

Salviati: Samningarnir eru mikilvægir og við þurfum að gæta hlut okkar í samfélagi þjóðanna.

Simplicio: Hvers virði er hið alþjóðlega samfélag ef að það kúgar okkur? Við getum vel staðið ein utan við hið svokallað alþjóðasamfélag.

Salviati: En hvað með viðskiptahagsmuni okkar erlendis til að mynda fiskútflutning okkar til Bretlands?

Simplicio: Nei, þeim dytti aldrei í hug að vera svo grimmir að stöðva hann. Við Íslendingar framleiðum svo góðan fisk.

Salviati: Þú hefur sagt þá vera nýlenduþjóð sem muni ekki veigra sér við því að beita okkur sömu samviskulausu meðölum og nýlendur okkar.

Simplicio: Þetta er bara hræðsluáróður.

Salviati: Eigum við þá ekki að semja?

Simplicio: Jú við eigum að láta ESB miðla málum í samræmi við hin svokölluðu Brussell viðmið. ESB verður réttlátt í þessum máli.

Salviati: Þú sagðir ESB vera kúgara. Telur þú að það verði sanngjarnt gagnvart okkur?

Simplicio: Þetta er bara hræðsluáróður.

Salviati: En hvað ef ESB telur núverandi samning sanngjarnan og að ekki sé hægt að ætlast til betri samnings?

Simplicio: Það getur ekki verið því samningurinn er svo vondur. ESB myndi aldrei segja það því við Íslendingar erum svo mikilvægir. Við eigum svo miklar auðlindir og allir vilja koma hingað.

Salviati: Vextir samningsins og lánstími eru hagstæðari en á öðrum lánasamningum til Íslands vegna hrunsins sem og eigum við miklar eignir til að borga af höfuðstóli. Af hverju ætti því samningurinn að teljast vondur?

Simplicio: Jú vegna þess að við eigum ekki að borga. Icesave málið er vegna galla í regluverki ESB og lélegu eftirliti hjá fjármálaeftirliti Bretlands og Hollands.

Salviati: Þannig að Ísland ber enga ábyrgð? Nú þurfa breskir og hollenskir ríkissjóðir að taka á sig hærri upphæðir vegna Icesave en sá íslenski. Er það sanngjarnt og þá fyrir utan það tap sem sparifjáreigendur útibúa í þessu landi urðu fyrir? Við tryggðum sparifjáreigendum í bönkum staðsettum á Íslandi 100% endurgreiðslur með neyðarlögunum. Af hverju gerðum við það?

Simplicio: Það skiptir engu máli. Íslendingar láta ekki kúga sig og þessi málflutningur þinn sæmir þér ekki þar sem hann gerir þig að landráðamanni. Við berum ekki ábyrgð að vitlausum ríkum útlendum fjármagnseigendum.

Salviati: En við græddum helling á þeim í gegnum miklar skattgreiðslur bankanna sem gerðu ríkissjóð skuldlausan. Er ekki eðlilegt að við tökum okkur byrðar vegna hruns bankanna líkt og allar aðrar þjóðir? Mest öll skuld þjóðarbúsins vegna bankanna er líka afskrifuð þannig að Icesave er bara brotabrot af því sem við gátum lent í.

Simplicio: Hefur þú samúð með erlendum kröfuhöfum? Það hefur aldrei þótt íslenskt að sýna samúð með ógnaröflum sem vilja gefa okkur maðkað mjöl.

Bjartsýnasti maður ársins

Flokksgæðingar ætla ekki að velja mann ársins að þessu sinni en vilja þó veita ein verðlaun – veita nafnbótina „bjartsýnasti maður ársins“. Samkvæmt áliti dómnefndar var aðeins einn maður sem kom til greina, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Í umsögn dómnefndar segir:

„Formaður framsóknarflokksins hefur varla látið viku líða án þess að birta Íslendingum nýjan spádóm  um bjarta framtíð þjóðarinnar . Hann er líka sá Íslendingur sem líklegastur er til að virða trúnað.“

Rökstuðning dómnefndarinnar má finna í hlekkjum á fréttir hér fyrir neðan.

1, 2, 3, 4, 5, 6