Enn enn ein vitleysan

Morgunblaðið nánast endurtekur mánaðargamla frétt Pressunnar á forsíðu sinni í dag. Báðar eru fréttirnar byggðar á álitsgerð hagfræðingsins Daniel Gros þar sem hann segist telja að Bretar og Hollendingar muni mokgræða á Icesavelánunum til Íslendinga.

Með því að kynna sér gögn Icesavemálsins á vefsíðunni island.is hefðu eflaust vaknað spurningar hjá starfsmönnum fjölmiðlanna tveggja sem hefðu getað forðað þeim frá þessum vandræðalega fréttaflutningi.

Pressan hefur það eftir hagfræðingnum í sinni frétt að Bretar og Hollendingar muni hagnast um 270 milljarða króna með því að rukka Íslendinga um töluvert hærri vexti en þeir greiða sjálfir af sínum lánum. Hvort það sé til marks um reiknihæfni hagfræðingsins eða ekki þá áttum við okkur illa á því hvernig vaxtahagnaðurinn getur orðið meiri en heildarvaxtagreiðslur Íslands af láninu sem áætlaðar eru um 240 milljarðar miðað við 90% endurheimtuhlutfall úr þrotabúi gamla Landsbankans.

Morgunblaðið slær öðrum vangaveltum hagfræðingsins upp á forsíðu í dag. Hann mun hafa velt upp þeirri spurningu hvort bresk og hollensk stjórnvöld ættu ekki samkvæmt jafnræðisreglu evrópska efnahagssvæðisins að veita íslenska innstæðutryggingasjóðnum lán á sömu kjörum og þau veita eigin sjóðum. Í fyrirsögn fréttarinnar segir að 185 milljarðar króna gætu sparast ef svarið við vangaveltum hans er játandi. Það er merkilegt því það er álíka upphæð og núvirt skuldbinding Íslands miðað við 90% endurheimtuhlutfall.

Í fréttinni kemur ekki fram um hvaða jafnræðisreglu hagfræðingurinn á við, en okkur er ekki kunnugt um að til sé einhver ein allsherjarjafnræðisregla í Evrópurétti. Það eru hins vegar jafnræðisreglur á mismunandi sviðum og miða þær allar að því að skapa jafnræði á markaði, þ.e. koma í veg fyrir mismunun og röskun á samkeppnisstöðu markaðsaðila. Tryggingasjóðirnir eru ekki markaðsaðilar og eiga ekki í neinni samkeppni sín á milli þannig að það er fráleitt að tala um jafnræðisreglu í því samhengi sem hagfræðingurinn gerir.

Það alvarlegasta í frétt Morgunblaðsins er að blaðið virðist vísvitandi villa um fyrir lesendum sínum með því að bera saman breytilega vexti og fasta án þess að gera grein fyrir eðlismun þeirra. Það gerir því skóna að ef kenning hagfræðingsins gangi upp þá væru vextir Icesavelánsins 1,5% í stað 5,55%, en þessir vextir eru alls ekki sambærilegir.

Morgunblaðið segir breska sjóðnum bjóðast lán á 1,5% vöxtum (LIBOR-vextir með 30 punkta álagi). Ekki kemur fram um hve langa LIBOR vexti er að ræða en líklegt má telja að um sé að ræða 12 mánaða vexti, þ.e. vexti sem breytast á 12 mánaða fresti. Icesavelánið ber aftur á móti fasta 4,29% vexti út 15 ára lánstímann með 125 punkta álagi. Til þess að hægt sé að bera þessi kjör saman þarf að umreikna LIBOR-vextina í 15 ára fasta vexti. Þar sem LIBOR-vextir eru að hámarki til 12 mánaða er hægt miða við vexti 15 ára vexti Evrópska seðlabankans og voru þeir 4,651% í júní síðastliðnum, þegar Icesavesamningarnir voru gerðir. Með 30 punkta álagi eru væru 15 ára vextir á lánum frá breskum stjórnvöldum til breska tryggingasjóðsins því 4,951%.

Rétt er að taka það fram að við höfum ekki fundið álitsgerð Daniel Gros á netinu og því byggjum við skrif okkar um hana alfarið á umfjöllun Pressunnar og Morgunblaðsins. Ef einhver lesandi hefur álitsgerðina í fórum sínum má hann gjarnan senda okkur hana á flokksgaedingar@gmail.com.

4 responses

  1. Takk fyrir þetta. Ætli þessar skýringar skolist til baka á forsíðu Morgunblaðsins?

  2. […] og því hafa gefist næg tækifæri til þess að fjalla um hana í fjárlaganefnd. Við höfum þegar fjallað um hana og látum það nægja en teljum rétt að skauta yfir gagnrýni […]

  3. […] Ekkert meira er um vexti á öllum þessum 86 síðum og hvergi neinar forsendur að finna um hvað teljast háir vextir eða viðmiðanir frá öðrum ríkjum né þeirra annarra lána sem ríkið þarf að taka vegna hrunsins. Hér er bara um að ræða skoðun lögmanns á vöxtum sem er jafn áhugaverð fyrir nútímalæknsifræði og skoðun grasalæknis á fósturvísarannsóknum. Enda er örugglega besta skýringin á vaxtaumfjöllun þessari að verið sé að rugla saman föstum og breytilegum vöxtum, sem væri ekki í fyrsta skiptið. […]

Færðu inn athugasemd