Furðulegasta hugmynd allra tíma?

Flokksgæðingar hafa áður fjallað um samning sem ríkisstjórnin gerði við stóriðjufyrirtækin um fyrirframgreiðslu tekjuskatts eftir að hún var barin til baka með upphafleg áform sín um umhverfis- og orkuskatta. Samningarnir fela í sér að árlega næstu þrjú ár greiði greiði stóriðjufyrirtækin samtals 1,2 milljarð króna upp í væntanlega álagningu þeirra árin 2013 til 2018. Í dag var frumvarp vegna hans til umræðu á Alþingi og það loks samþykkt.

Þar stóðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins staðfastlega á móti málinu. Þeir segja að um sé að ræða „lántöku frá skatttekjum framtíðarinnar“ sem ætti að færa til bókar sem lán en ekki tekjur. Gengu sumir svo langt að segja málið vera „furðulegasta lagafrumvarp allra tíma“. Flokksgæðingar geta tekið undir þetta en finnst málflutningur Sjálfstæðismanna skjóta skökku við í ljósi þess hvert helsta „tromp“ Sjálfstæðismanna í umræðunni um ríkisfjármálin er.

Sjálfstæðismenn vilja einmitt fjármagna hrunið með því að taka tekjuskatt af framtíðarútgreiðslum úr séreignarlífeyrissjóðum að láni eins og flokksgæðingar hafa áður fjallað um. Ef gerð væri krafa um að Sjálfstæðisflokkurinn væri samkvæmur sjálfum sér að þá hefur hann afgreitt sínar eigin hugmyndir út borðinu með fullnægjandi rökum.

Færðu inn athugasemd