Vanhæfar lögfræðistofur?

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um og gert mikið úr lögfræðiáliti bresku lögfræðistofunnar Miscon de Reya á Icesave-samningunum. Hins vegar hefur lítið sem ekkert hefur verið fjallað um samskonar álit sem breska lögmannstofan Ashurst gerði.

Bloggarinn Baldur McQueen veltir því fyrir sér á bloggi sínu í gær hvað skýri þennan áhugamun. Þar bendir hann á að Ashurst sé stærri og talin virtari stofa en Mischon de Reya. Ashurst sé ein af 10 bestu lögfræðistofum Bretlands og meðal þeirra 50 bestu í heiminum. Mischon de Reya kemst ekki á lista yfir 100 bestu lögmannsstofur í heiminum og vermir 62. sætið í Bretlandi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins og Ragnar H. Hall lögmaður varpa fram kenningu í Morgunblaðinu í dag til að útskýra þennan áhugamun fjölmiðlanna. Kenningin er sú að Ashurt er vanhæf vegna þess að hún hafi komið að vinnu stjórnvalda við málið áður. Ekki fjalla þeir um hvort að slíkt gildi þá ekki líka um Mischon de Reya.

Í greinargerð með upphaflega Icesave-frumvarpinu sem er að finna á island.is kemur fram að samninganefndin hafi notið aðstoðar lögmannsstofunnar Mischon de Reya. Í kafla 9.6, þar sem taldir eru upp þeir sem störfuðu með nefndinni, segir:

Nefndin naut einnig aðstoðar lögmannsstofunnar Mischon de Reya í London. Þá eru enn ótaldir fjöldi sérfræðinga sem nefndin leitaði til.

Mischon de Reya starfaði samkvæmt þessu með samninganefdinni að upphaflegu samningunum. Væri ekki ráð fyrir fjölmiðla að spyrja þá Sigmund og Ragnar hvort það ónýti þá ekki líka greinargerð þeirra? Þá hefur þeirri spurningu ekki enn verið svarað afhverju stjórnarandstaðan lagði alla áherslu á að fá Mischon de Reya til verksins en ekki stærri og virtari lögfræðistofur, og það þrátt fyrir að hún væri augljóslega vanhæf ef mark skal tekið á kenningu formanns Framsóknarflokksins um hvað skilur að hæfi og vanhæfi að í þessu máli.

Færðu inn athugasemd